Saga BRYNJU Hússjóðs

The control has thrown an exception.

Saga BRYNJU Hússjóðs

Saga BRYNJU Hússjóðs

Sögulegt yfirlit 

Fljótlega eftir stofnun Öryrkjabandalags Íslands í maí 1961, hófust umræður innan stjórnarinnar um brýnustu verkefni komandi ára. Samþykkt var einróma að auk upplýsingaþjónustu, félagslegrar aðstoðar og atvinnuútvegunar skyldi hið fyrsta gert átak til þess að færa húsnæðismál öryrkja í betra horf.

Vitað var að húsnæði var að jafnaði dýrasti liður framfærslunnar og nokkru áður en bandalagið var stofnað hafði könnun á húsnæði fjölmenns öryrkjahóps í Reykjavík leitt það í ljós að meirihluti þeirra sem könnunin náði til bjó í kjöllurum, bröggum, risíbúðum eða öðru því húsnæði sem lélegast var í bænum og þar af leiðandi ódýrast. Hér var mjög oft um heilsuspillandi húsnæði að ræða, sem fráleitt var að láta heilsuveilt fólk búa í.

Að vandlega athuguðu máli var loks ákveðið að stofna sjóð er hafa skyldi það hlutverk að byggja og reka leiguhúsnæði fyrir öryrkja. Þegar þetta fyrirkomulag hafði verið samþykkt af aðalfundi Öryrkjabandalagsins árið 1965 var samin skipulagsskrá fyrir sjóðinn og hönnuðir ráðnir til að gera frumdrætti og áætlanir. Ennfremur var þá strax sótt um lóð hjá Reykjavíkurborg.
Fjármögnun húsbygginganna var hugsuð þannig:

  1. Styrkir og lán úr Erfðafjársjóði.
  2. Lán frá Húsnæðismálastofnun ríkisins.
  3. Skuldabréfalán frá verðandi leigjendum eða sveitarfélögum.
  4. Gjafir og áheit.

Skipulagsskrá fyrir sjóðinn var staðfest af forseta Íslands þann 22. febrúar 1966.

Á árinu 1965 og 1966 störfuðu hönnuðir og verkfræðingar að því með stjórninni að gera frumáætlanir um stærð og gerð íbúða, um heildarfjölda íbúða og annað rými.
Endanlega var ákveðið að byggja í Hátúni 10 þrjú háhýsi með 250 íbúðum, að mestu einstaklingsíbúðum, en þó allmargar hjónaíbúðir. Stærð íbúða var 28-60 fermetrar, nettó. Sameiginleg þjónustuaðstaða skyldi byggð í tengiálmu á milli húsanna þriggja. Var gert ráð fyrir vinnuaðstöðu, vistarverum fyrir heimilishjálp og heimahjúkrun, verslun, dagstofu, skrifstofum Öryrkjabandalagsins o.s.frv.

Er teikningar höfðu verið samþykktar af stjórn Öryrkjabandalagsins, aðalfundi ÖBÍ og Byggingar- og skipulagsnefnd Reykjavíkurborgar rann upp sú stóra stund að fyrsta skóflustungan var tekin að fyrsta húsi bandalagsins þann 21. september 1966. Bygging fyrsta hússins gekk svo nokkurn veginn eftir áætlun. Sífellt basl, en með hjálp góðs starfsfólks og velvilja almennings tókst að komast yfir alla örðugleika.

Í apríl 1969 flutti fyrsti öryrkinn inn í Hátún 10 og 1972 var Hátún 10a tekið í notkun. Byrjað var á 3ja húsinu, Hátúni 10b, árið 1972. Fljótlega eftir að bygging þess hófst fór að síga á ógæfuhliðina í fjármálum. Þegar það hús var uppsteypt varð að stöðva framkvæmdir vegna fjárskorts. Þá var það ráð tekið að leigja ríkinu um það bil hálft húsið fyrir fatlaða aldraða til 13 ára. Öll leigan fyrir tímabilið var greidd fyrirfram og varð til þess að lokið var við byggingu hússins. Þar var Öldrunardeild Landspítalans, stærsta og best búna öldrunardeild landsins. Ennfremur veitti Reykjavíkurborg fjárstuðning gegn því að fá að ráðstafa 20 íbúðum í Hátúni 10b um ákveðið árabil.

BRYNJA Hússjóður hafði nú byggt háhýsin 3 í Hátúninu, þau voru fullsetin öryrkjum og biðlisti langur. Skömmu eftir að byggingu Hátúns 10b lauk bauðst húsgrunnur í miðbæ Kópavogs í Fannborg 1. Þar byggði Hússjóður háhýsi með 41 íbúð, þannig að þrátt fyrir leigu til ríkisins þá voru íbúðirnar nú orðnar 250 eins og upphaflega var áformað.

Á árunum 1981-1987 byggði BRYNJA Hússjóður tengiálmu með þjónustuaðstöðunni sem áður var minnst á. Sú bygging var fjármögnuð með framlagi frá Reykjavíkurborg, framlagi frá Framkvæmdasjóði fatlaðra og bankalánum.

Á árunum 1990 - 2001 byggði hússjóðurinn 60 íbúðir við Sléttuveg í Reykjavík. Um er að ræða 2 fjölbýlishús með 2ja, 3ja og 4ra herbergja íbúðum. 

Síðastliðin ár hefur verið unnið að endurnýjun, stækkun og fækkun íbúða í Hátún 10. Íbúðum hefur verið fækkað um 30 og verður unnið að frekari fækkun á næstu árum með því að sameina íbúðir.

Í desember 2007 var fjölbýlishúsið að Fannborg 1, Kópavogi selt og leigutakar BRYNJU Hússjóðs í Fannborginni fluttu í nýjar íbúðir víðsvegar um höfuðborgarsvæðið.
Vegna gífurlegrar eftirspurnar eftir leiguhúsnæði fyrir fatlaða hefur BRYNJA Hússjóður keypt íbúðir árlega og í dag er íbúðafjöldi 806.
Gera má ráð fyrir að keyptar verði 20-30 nýjar íbúðir árlega á næstu árum.

Samstarf við velferðarráðuneytið

Samstarf við ráðuneyti var farsælt til ársins 2011 þagar málaflokkur fatlaðra fór yfir til sveitarfélaga. BRYNJA Hússjóður kom að byggingu á sérhæfðu húsnæði og búsetuúrræði fyrir geðfatlaða í samstarfi við Straumhvörf og lagði ráðuneytið fram stofnstyrki vegna kaupa íbúðum.

 

Rekstur fasteigna

Í dag er BRYNJA Hússjóður rekinn með því markmiði að jafnvægi sé á milli tekna og gjald. Til fjárfestinga hefur sjóðurinn fengið hlut af Lottó hagnaði sem Öryrkjabandalag Íslands hefur úthlutað á hverju ári og lánum frá Íbúðalánasjóði.

 

Hvers vegna sjálfseignarstofnun?

Oft er spurt hvers vegna BRYNJA Hússjóður sé sjálfseignarstofnun, en ekki aðeins hluti af Öryrkjabandalaginu. Þetta mál var mikið rætt áður en fyrirkomulagið var ákveðið. Miklu réði að með þessu fyrirkomulagi þurftu aðildarfélög bandalagsins ekki að taka á skuldum BRYNJU Hússjóðs. Einnig litu margir stjórnarmenn svo á að BRYNJA Hússjóður þyrfti að hafa það sjálfstæði til ákvörðunar sem felst í sjálfseignarfyrirkomulaginu.

BRYNJA Hússjóður hefur starfað síðan árið 1965. Hann hefur lengstaf haft mikil umsvif en lítil efni. Oft hefur þrengt að og jaðrað við uppgjöf en jafnan ræst úr. Ekki er vafi á því að frá upphafi hefur sjóðurinn notið þess að hafa frábært starfsfólk sem af ósérplægni og áhuga fyrir málefninu hefur axlað þær byrðar sem þurfti.
Sjóðurinn stendur í mikilli þakkarskuld við þetta fólk, lífs og liðið, og einnig þá fjölmörgu sem með gjöfum, stórum og smáum, hafa gert þetta átak mögulegt.