Skipulagsskrá

The control has thrown an exception.

Skipulagsskrá

Skipulagsskrá

Skipulagsskrá BRYNJU Hússjóðs ÖBÍ

SKIPULAGSSKRÁ

1. gr.

Nafn og heimili.

Sjóðurinn heitir BRYNJA - Hússjóður ÖBÍ.  Heimili og aðalstarfsstöð sjóðsins er Hátún 10c í Reykjavík.

 

2. gr.

Tilgangur.

Tilgangur sjóðsins er að kaupa, eiga og reka íbúðarhúsnæði fyrir öryrkja. Húsnæði þetta leitast sjóðurinn við að leigja gegn eins hóflegu gjaldi og kostur er. Sjóðurinn má ekki leigja húsnæðið öðrum en öryrkjum og stofnunum sem veita öryrkjum þjónustu nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi.

 

3. gr.

Stofnendur og stofnfé.

Sjóðurinn var stofnaður 1. nóvember 1965 af Öryrkjabandalagi Íslands og sex aðildarfélögum þess, Blindravinafélagi Íslands, Geðverndarfélagi Íslands, Sambandi íslenskra berklasjúklinga, Sjálfsbjörg landssambandi fatlaðra, Styrktarfélagi vangefinna og Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra. Lögðu þessir aðilar fram óafturkræft stofnfé samtals að fjárhæð 100.000 kr.

Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun og ber einn ábyrgð á skuldbindingum sínum með öllum eignum sínum og öðrum þeim eignum sem hann kann að eignast síðar. Stofnendur njóta engra sérréttinda í sjóðnum.

4. gr.

Tekjur.

Tekjur sjóðsins eru leigutekjur, fjármagnstekjur og framlög sem honum berast.

5. gr.

Stjórn.

Stjórn sjóðsins skal skipuð fimm aðalmönnum og þrem til vara. Skulu tveir aðalmenn og einn varamaður kjörnir af aðalstjórn ÖBÍ til fjögurra ára í senn annað hvert ár. Félagsmálaráðherra skal tilnefna einn stjórnarmann og annan til vara til fjögurra ára í senn.

Stjórn sjóðsins skiptir með sér verkum, kýs sér formann, varaformann, sem jafnframt skal vera ritari, og gjaldkera. Hún skal sjá til þess að skipulag og starfsemi sjóðsins séu í réttu og góðu horfi. Stjórnin ræður málefnum sjóðsins. Undirskrift formanns auk tveggja stjórnarmanna bindur sjóðinn gagnvart þriðja aðila.

Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar sækir fund. Mikilvæga ákvörðun má þó ekki taka nema allir stjórnarmenn hafi haft tök á að fjalla um það mál sem um ræðir, sé þess kostur. Fund skal jafnan halda ef einhver stjórnarmanna eða framkvæmdastjóri krefst þess. Afl atkvæða ræður afgreiðslu mála og skal færa í gerðarbók meginatriði þess sem gert er og ákveðið á stjórnarfundum.

Stjórnin setur sér starfsreglur. 

6. gr.

Framkvæmdastjóri.

Stjórn sjóðsins ræður framkvæmdastjóra og ákveður starfskjör hans. Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur sjóðsins. Hann sér um reikningshald og ráðningu starfsliðs. Framkvæmdastjóri situr stjórnarfundi og hefur þar málfrelsi og tillögurétt. Honum ber að veita stjórnarmönnum og endurskoðendum þær upplýsingar um rekstur sjóðsins sem þeir kunna að óska eftir.

 

7. gr.

Reikningar og endurskoðun.

Reikningsár sjóðsins skal vera almanaksárið. Skulu reikningar endurskoðaðir af löggiltum endurskoðendum í samræmi við lög, reglur og settar reikningsskilareglur. Stjórn sjóðsins skal senda reikningana með áritun endurskoðenda ásamt ársskýrslu til aðalstjórnar ÖBÍ fyrir lok apríl ár hvert til kynningar.

 

8. gr.

Hagnaður og tap.

Hagnaði sem verður af starfsemi sjóðsins skal varið til verkefna í samræmi við 2. gr. skipulagskrár þessarar. Þó er stjórn heimilt að leggja sanngjarna fjárhæð til hliðar til að tryggja fjárhagsstöðu og áframhaldandi rekstur sjóðsins. Hugsanlegt tap af starfsemi sjóðsins verður annaðhvort greitt úr sjóðum hans eða fært á næsta reikningsár.

 

9. gr.

Breytingar á skipulagsskránni.

Skipulagsskrá þessari verður ekki breytt nema með samþykki fjögurra  stjórnarmanna, sem og meirihluta aðalstjórnar ÖBÍ.

 

10. gr.

Slit.

Með tillögur um slit og skipti á sjóðnum skal fara sem um breytingar á skipulagsskrá þessari. Komi til þess að sjóðurinn verði lagður niður skal hrein eign hans renna til sambærilegra verkefna og tilgreind eru í 2. gr. eftir nánari ákvörðun stjórnar.

  

11. gr.

Staðfesting.

Um þau atriði sem ákvæði skipulagsskrár þessarar ná ekki til skal hlíta ákvæðum laga  nr. 19/1998 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, svo og öðrum þeim lagaákvæðum er við eiga.

  

                                                                                                           Reykjavík, 24. ágúst 2016.